föstudagur, júní 01, 2007

Jamón, queso, jamón y queso


Matseðillinn var oft þunnur á Kúbu þá sérstaklega ef mann langaði bara í eitthvað smá.
Við: Eruð þið með einhverjar samlokur?
Þjónn: Jájá, við erum með samlokur með skinku, osti og skinku og osti. Mjög góðar.

Við erum allavega komin heim eftir frábært ferðalag. Ég kem svo til Íslands 13. júní, alkominn.

Svo er ég netlaus heima við og lítið um blogg og slíkt af þeim sökum.

Myndin er af svölunum okkar í Havana.

fimmtudagur, apríl 26, 2007

Uppgefnar eftir Louisiana

Þær stöllur eru á leiðinni heim frá Louisiana safninu þegar þessi mynd var tekin. Það er greinilegt að list leiðir af sér djúpa íhugun.

föstudagur, apríl 20, 2007

Callé Neptuno

Við Eva höfum pantað okkur gistingu í Madrid og í Havana. Við ætlum að eyða enni nótt í Madrid vegna þess að fluginu okkar var breytt. Við fljúgum svo til Havana daginn eftir, sem er sosum ágætt því ferðalagið er langt.
Í Madrid Verðum við á Hostal laVera, sem er það ódýrasta í Madrid og heldur 11 herbergi en það er staðsett rétt við Retiro-garðinn og hýsti áður hertogann af Sanotána. Þá vitið þið það.

Í Havana ætlum við að gista heima hjá hjónum. Við höfum leigt af þeim íbúð í húsinu þeirra við Callé Neptuno í Centro Habana y Prado. Hverfið er gamalt og frá nýlendutímanum og er mitt á milli Vedado, hverfis sem byggðist að mestu upp eftir Castro eða A.C., og gamla hlutans. Við fengum myndir af slotinu okkar og eina mynd af hjónunum sjálfum.




Maður fer stundum að hugsa um eitthvað annað... er einmitt að fara í próf eftir 3 tíma.

laugardagur, apríl 07, 2007

Páska-raksturinn

Mikið var gaman í stuttri heimsókn á Íslandi fyrir utan móðganir í minn garð varðandi hársöfnun.



Ég pældi í að hætta þarna. Fannst þetta vera eitthvað svo vorlegt.

En endaði á að taka allt og vaskurinn er stíflaður. Skyldi þó eftir tvö T-bone.

laugardagur, mars 31, 2007

Húðflögur og vín

Þessa dagana er ég að tjasla saman mínum hluta í Bs. verkefninu mínu. Það er sosum sama sagan og alltaf, gerist hægt og ég fer að efast um eigið ágæti. Svo er Eva á Íslandi og því enginn til þess að stappa í mig stálinu.

Ég reyni því að finna upp á einhverju að gera utan íbúðarinnar á hverjum degi. Sú athöfn á að vera til þess fallin að hressa mig og kæta, örva hug og hlýja hjarta.

Um daginn var gott veður, þá þótti mér tilvalið að fara í sund, Österbro svömmehallen skyldi það vera. Ég hef ekkert sérstaklega góða reynslu af dönskum sundstöðum eftir að ég nýtti mánaðarkortið mitt við sundlaugina á Frankrigsgade. Ég var alltaf mettur eftir þær sundlaugaferðir, enda búinn að súpa á húðflögum gamalla karla við að synda kílómeter.

Hvað um það. Ég skellti mér í innisund enda veðrið frábært. Því næst kom ég við á hjá strákunum á La Fiorita því Österbro-laugin er mun þrifalegri en sú á Amager og kenndi ég því til hins venjulega eftirsundstaðahungurs. Ætiþistlapizza með chilli. Vinbörsen er mín búð, þar er besta kaffi í heiminum og það besta er að þegar þau hafa malað fyrir mig þá eltir lyktin af kaffinu mig alla leið heim þar sem hún læðist upp úr töskunni minni. Ég tyllti mér svo við Sortedamssö og lyktaði af töskunni minni og naut sólarinnar og valdi mér íbúð. Eftir að hafa komist að niðurstöðu og hafa reynt að meta eiginleika hverrar þeirrar sem ég rak augun í var ég orðinn svo ímyndunarveikur að mér fannst Eva vera úti á svölunum á einni þeirra. Ég spratt upp og rýndi, þetta var Eva. Hún sagðist hafa farið til Íslands! Ég ætlaði að hringja í hana og reyna að fá hana til að fletta ofan af sér, en mér datt ekkert trix í hug svo ég hringdi bara horfandi á konuna á svölunum. Ég var orðinn ímyndunarveikur.

Inni í safnarabúðinni þarna rétt hjá var skrýtið fólk, eins og er alltaf inni í slíkum búðum. Ég fann mér “Sketches of Spain”, og það er sko flott verk (eða tussufín plata). Ég nennti samt ekki heim strax þótt klukkan væri orðin eftirmiðdagur og ég ekki enn byrjaður á dagsverkinu. Ég mat það í huganum hvort ég ætti að rölta Dag Hammarskjölds-hringinn eða fara niður Classensgade og kannski koma við í Italiensk Vinhus (sem ég hef minnst á áður). Tók seinni kostinn. Guiseppe var að vinna eins og venjulega og aðeins kominn í’ða. Bonjorno! Bla bla bla, mussolini, bla bla bla, parmegiane, bla bla bla Amarone!! Ég skil hann aldrei en hann talar við mig ensku. Hann gaf mér að smakka á Amarone, held ég. Ég keypti af honum eina Chianti Classico ’99, hann fletti henni upp í 3 bókum fyrir mig til að fullvissa mig um gæði hennar eftir að ég spilaði leikinn og spurði hann hvort ’99 hefði verið gott ár fyrir Chianti.

Hann kvaddi mig með hálfvirði og einhverju sem þýddi endilega komdu aftur, ég er með nýtt vín að smakka í hverri viku, ég lauk við glas tvö og hélt heim á leið.

Eldaði mér pasta og drakk Chianti Classico ’99, alla, einn. Átti gott spjall við sjálfan mig til miðnættis er ég dó áfengisdauða í rúminu mínu.

Daginn eftir klæddi ég mig í nærbuxur, undir þeim, ofan á sokkunum mínum tjillaði massíft ofalinn silfurskottudjöfsi. Hún var á stærð við húslykil, ég kyrkti hana og drekkti, fékk mér kaffi og byrjaði að skrifa Bs. Ritgerð.

föstudagur, mars 02, 2007

Seinasti dagurinn


Auglýsingin sagði "til 3. mars eða eins og birgðir endast". Það er komið að því að loka verslun Indriða í Saltfélaginu enda hefur gengið vel. Ég vil óska öllum þeim sem lögðu leið sína í Saltfélagið til hamingju með það að hafa eignast föt frá einum besta sníðagerða- og klæðskera meistara landsins.

Það var hrein unun að leyfa fólki að kaupa þessi föt. Mér fannst vera forréttindi að rétta fólki poka með skyrtunum hans Indriða.

Njótið vel.

mánudagur, febrúar 12, 2007

Indriði opnar í Saltfélaginu

Verslun undir merkjum Indriða mun opna í Saltfélaginu við Grandagarð 2 (gamla Ellingsen-húsinu) þann 18. febrúar og verður hún opin til 3. mars.

















Að því tilefni er ég á leiðinni til Reykjavíkur og mun standa vaktina í Saltfélaginu og vonast ég til að sem flestir kíki í heimsókn.

Opnunartímar:
mán-fös: 10-18
lau: 11-17
sun 12-16